Fara í aðalinnihald

Einstaklingsmiðuð þjálfun í fótbolta

Mín skoðun er sú að árangur liða er undir gæðum einstaklinganna sem þau skipa kominn. Það er hægt að tala um gildi leikkerfa, leikstíla, leikgreininga.  En þegar allt er á botninn hvolft eru það gæði leikmannanna sjálfra sem skilja á milli.

Nálgunin í þjálfuninni þarf því að vera einstaklingsmiðuð að mínu mati!

Óháð leikkerfum og leikstílum þá eru það ætíð leikmennirnir sem geta búið til eitthvað úr engu sem vinna leikina.  Í yngri flokkum má aldrei liðið vera í forgangi heldur einstaklingarnir.  Leikæfingar eiga að vera í smáum hópum með auknu erfiðleikastigi. Æfingarnar leikgrænar og aðlaðandi.

Heimaæfingar eru gríðarlega mikilvægur þáttur og er gaman að sjá menn nú á þessum erfiðleikatímum duglega að hvetja til þeirra á meðal ungra iðkenda.

Í meistaraflokki, sérstaklega í efstu deildunum hvort heldur er hér heima eða erlendis þá eru nánast allar upplýsingar uppi á borðinu og aðgengið að öllu í því sambandi alltaf að verða betra og betra.  Það er fátt ef ekkert sem kemur mótherjum liða lengur á óvart því möguleikinn á að greina allt niður í smáatriði er svo mikill.

Þess þá heldur er mikilvægi leikmanna sem geta komið mótherjanum í opna skjöldu og búið til eitthvað úr engu meira og meira.

Í dag eru margir þessarar sömu skoðunnar og hér er viðruð.  Sá sem viðraði þessa skoðun fyrst og var litinn hornauga fyrir vikið, er nú að margra mati álitinn Einstein fótboltans, Wiel Coerver.  Á næsta ári verður áratugur frá því hann kvaddi okkur en hans skoðanir og hugmyndir eru alltaf að hljóta meiri hljómgrunn eftir því sem tíminn líður.

Það er. t.a.m. nokkuð merkilegt að mörg lið eru farin að ráða þjálfara sem eru sérfræðingar í tækniþjálfun í sitt þjálfarateymi.  Sum hafa meira segja gengið svo langt að ráða tækniþjálfara sem aðstoðarstjóra.  Besta dæmið nú um stundur er  Pepijn Lijnders hjá Liverpool.  Tækniþjálfarar eru því orðnir fastur hluti af þjálfarateymi margra félaga erlendis í dag.

Menn eru farnir að sjá það hvað einstaklingsmiðuð þjálfun er gríðarlega mikilvæg í fótbolta.

Sir Alex Ferguson var einna fyrstur manna á hinu hæðsta stigi fótboltans til að fara þessa vegferð þegar hann réð Rene Meulensteen til starfa hjá Man. Utd rétt eftir aldamótin.

Sir Alex hafði þetta að segja um ráðninguna fyrir nokkrum árum. ,,Ein af ástæðunum fyrir því að við réðum Rene var þekking hans og reynsla af Coerver Coaching æfingaáætluninni.  Ásetningurinn í upphafi var að bæta tæknilega færni ungu leikmannanna en allir leikmennirnir nutu síðar góðs af þjálfuninni, ekki eingöngu ungu leikmennirnir”.

Ég myndi vilja sjá íslensk félög fara í þessa vegferð.  Einnig myndi ég vilja sjá íslenska þjálfara leggja sig meira fram um það að mennta sig á þennan hátt. Því mannauðurinn til slíkra verka er til staðar og gildi tækniþjálfunnar er klárlega framtíðin að mínu mati.

Þau félög og knattspyrnusambönd sem ekki leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun munu sitja eftir, og þess eru dæmi nú þegar.

Besta dæmið er Holland og er það nokkuð merkilegt í ljósi þess að upphafsmaður einstaklingsmiðaðar þjálfunnar í fótbolta sé hinn hollenski Wiel Coerver.  Kannski sannast því hið forkveðna ,,engin er spámaður í eigin föðurlandi“

Eftir að ungir leikmenn í Hollandi hættu að leika sér í fótbolta á götum úti eins og þeir gerðu í gamla daga(og æfðu þar tækniatriðin), lentu Hollendingar í stórkostlegum vandræðum með að ala upp leikmenn á sama gæðastigi og áður.  Áherslan á lið og taktík í þjálfun hefur orðið til þess við nútíma aðstæður, eru stjörnuleikmenn Hollands ekki lengur til í þeim mæli sem áður var.  Van Pierse og Robben eru þeir síðustu að mínu mati og þess má geta að báðir voru þeir í þjálfun hjá Wiel Coerver.

Ég talaði um Rene Meulensteen(sem einnig er hollenskur) áðan en það er þekkt staðreynd að hann gengdi algjöru lykilhlutverki í að hjálpa Cristiano Ronaldo að verða sá leikmaður sem hann síðar varð.

Ef einstaklingsþjálfun er og var nauðsynleg/mikilvæg fyrir leikmann eins og Cristiano Ronaldo.  Af hverju er hún það þá ekki að sama skapi fyrir alla aðra?

Það sem er svo frábært við einstaklingsmiðaða þjálfun í fótbolta er að allir njóta góðs af henni.  Hvort heldur er iðkendur í yngri flokkum eða leikmenn í meistaraflokki, og á hvaða getustigi sem er.

Ef allir bæta sig þá næst meiri árangur í hvaða mynd sem er.
Knattspyrnukveðjur,
Heiðar Birnir Torleifsson

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Uppbygging Æfinga

Við þjálfun ungra leikmanna skiptir uppbygging æfinga gríðarlega miklu máli. Skoðanir eru sjálfsagt misjafnar á því eins og gengur. Mín skoðun er sú að hefðbundin fótboltaæfing eigi að innihalda eina megin stefnu eða þema. Allt frá upphitun þarf æfingin að vera uppbyggð með endirinn í huga og þannig þróast áfram þar til ákveðnu hámarki er náð. Í framhaldi af því á að enda æfingar með frjálsu spili hvar leikmenn eru kvattir til að hugsa um og framkvæma þá hluti sem þeir voru að æfa. Með vel skipulögðum æfingum hvar erfiðleikastigið eykst smám saman náum við að koma þeim þáttum sem við erum að kenna/þjálfa smám saman inn í leik leikmanna/iðkenda. Þannig hefur allt sem kennt er og þjálfað á æfingum svokallað ,,leikrænt gildi” og tilgangurinn því að leikmenn geti notað og framkvæmt færnina í leik. Hér að neðan kemur dæmi um uppbyggingu á æ...

Nýtum Tímann

Í þjálfun barna og unglinga í knattspyrnu er mikilvægt að allur æfingatími sé eins vel nýttur og mögulegt er. Aldurinn 8-14 ára er oft kallaður hinn gullni aldur í hæfileikamótun ungra knattspyrnumanna þ.e. á þessum aldri eru leikmenn móttækilegastir og lífræðilega best til þess fallnir að þjálfa upp góða tækni(þó allir geta á öllum tíma og aldurskeiðum bætt sig)  Lykilatriðið er samt grunnfærnin sem allir aðrir þættir leiksins eru svo byggðir ofan á. Grunnfærni einstaklingsins eru að mínu mati eftirfarandi atriði.   Fyrsta snerting á bolta Hlaupa með bolta 1v1 hreyfingar Skjóta á mark Grunnurinn að þessu öllu er svo knattstjórnun eða “ball mastery”. Á þessum tiltekna aldri er gríðarlega mikilvægt að ofangreindir þættir séu útgangspunktar í allri þjálfun og sá grunnur sem aðrir þættir þjálfunar eru svo byggðir ofan á. Fyrir okkur í Coerver Coaching er algjört lykilatriði að boltinn sé miðpunktur alls í þjálfun barna og unglinga.  Allt f...

Færni Ungra Knattspyrnumanna

Þegar Gerard Houllier var fræðslustjóri franska knattspyrnusambandsins þá lét hann gera rannsókn á því hversu oft staðan 1v1 kæmi fyrir í einum knattspyrnuleik. Niðurstaðan var sú(þá) að það kemur allt að 300 sinnum fyrir staðan 1v1 í knattspyrnuleik.  Það eru liðin mörg ár síðan þessi rannsókn var framkvæmd og leikurinn orðinn enn hraðari og kröfuharðari á færni leikmanna.  Oftar en ekki er ungum leikmönnum fyrirskipað að senda boltann einfalt frekar en að reyna flóknari hluti s.s. að senda erfiðari sendingar( úrslitasendingar eins og Gylfi og Fabregas sem geta breytt leikjum), einleika og búa þannig til svæði fyrir sjálfan sig og aðra eins og Robben, Ronaldo og Messi.  Fyrir þann sem ekki reynir gerist tvennt. Annarsvegar gerir hann eða hún aldrei mistök og hinsvegar nær hann eða hún engum framförum!  Við getum spurt okkur þeirrar spurningar hvað leikmenn eiga að gera þegar það er enginn til að senda á? Eiga leikmenn að sparka boltanum útaf? Eða þurfa lei...