Fara í aðalinnihald

Sjáum Skóginn Fyrir Trjánum

Hvað er góð þjálfun? Hvernig skilgreinum við árangur í þjálfun barna og unglinga? 
Árangur í knattspyrnu er oftar en ekki mældur í sigrum. 

Eðlilega er það aðal mælikvarðinn í meistaraflokki. Reyndar er það mín skoðun að það megi ekki vera eini mælikvarðinn.  

En varðandi þjálfun barna og unglinga er það algjört óráð!  

Vinna þjálfara á fyrst og fremst að snúast um það að móta og þjálfa upp hæfileika ungra leikmanna óháð getu hvers og eins. Það eiga allir skilið góða þjálfun! Þetta þurfa stjórnarmenn og foreldrar að gera sér grein fyrir. Einnig þarf að ákveða hvernig hæfilieikamótun eigi að fara fram og hvernig umhverfi eigi að skapa til að iðkendur njóti sín og fái rúm til að ná framförum.  

Þjálfarar eru oftar en ekki undir gríðarlegri pressu í yngri flokkum að vinna leiki og knattspyrnumót. Þjálfari sem vinnur leiki er talinn vera góður þjálfari! Nú tek ég það fram að ég er ekki á móti því að vinna leiki. Það eiga allir að fara í hvern leik til að vinna. Hinsvegar má það ekki vera á kostnað framfara og koma í veg fyrir að krakkar fái tækifæri til að framkvæma nýja hluti.  

Vel-meintar hrópanir foreldra inn á völlinn í keppni gera oftar en ekki annað en að skemma fyrir! Hlutverk foreldra er að hvetja sitt lið áfram en ekki að stjórna krökkunum með allskonar skilaboðum. 

Börn og unglingar þurfa að fá tækifæri til að þjálfa upp sjálfstæða hugsun í leik sínum, læra „fótboltahugsun“, sjá leikinn fram í tímann, gera mistök og læra af þeim. 

Umhverfi sem þjálfar og laðar slíka hluti fram er best til þess fallið fyrir unga leikmenn að alast upp í.  

Það er t.d. alltof mikið um það að ungum leikmönnum sé bannað að einleika. Þrátt fyrir áratuga umræðu þá virðist ekki mikið breytast í þeim efnum. Maður heyrir alltof oft kallað inn á völlinn; ,,ekki gera of mikið“ eða „gefðu boltann drengur/stelpa“. Þessar setningar eru algjört eitur í mínum eyrum. 

Það er mikilvægt að rýna til gagns en ekki til leiðinda! Leikmaður sem gerir sömu mistökin aftur og aftur og virðist ekki læra, þarf að fá handleiðslu um hvernig sé best að ná markmiðunum. Þau skilaboð þurfa að vera jákvæð, uppbyggjandi og þannig hvetjandi að viðkomandi finni eins og hægt er sjálf(ur) lausnina. 

Mikilvægi þess að hvetja unga leikmenn og kenna þeim að einleika og framkvæma hluti sem brjóta upp leikinn hefur aldrei verið meiri. Hjálpa þarf krökkum að setja sér markmið fyrir keppni sem hvetja til skapandi leiks.  

Til að mynda er hægt að setja sér eftirfarandi markmið:  ,, í dag ætla ég að nota „skærin“ a.m.k. þrisvar sinnum til að leika á mótherjann“. Svo er hægt að gefa þeim stig fyrir að ná markmiðunum. Það sem gerist er að krakkarnir fara að velja augnablikin til að framkvæma þessa hluti, þjálfa þannig upp leikskilning og rétta ákvarðanatöku, auk þess sem þau æfa sig mikið sjálf á milli æfinga. Upplifa það að ná markmiðum sínum og ná að endingu meiri framförum en ella.  

Leikmaður sem nær framförum helst lengur í boltanum, félagið fær að endingu fleiri góða knattspyrnumenn upp í meistaraflokk. Sem sagt allir sigra!  

Framfarir einstakra leikmanna verður alltaf að vera helsti mælikvarðinn á gæði þjálfara og þjálfunar að mínu mati. 

Ofuráhersla á sigur í yngri flokkum er höfuðandstæðingur hæfileikamótunnar! 

Ástæðan er einföld. Þjálfari sem á starf sitt undir því að þurfa að vinna alla leiki, mun haga starfi sínu á þann veg að hæfileikamótun er ekki efst á dagskránni. Hann undirbýr liðið sem best fyrir keppni oft á kostnað tækni og leikskilnings æfinga sem þurfa að vera hluti af hverri einustu æfingu. Rými til framfara og mistaka er ekki mikið og auk þess sem hætta er á að þjálfarinn verði mjög „dóminerandi“ í sinni nálgun á æfingum og í leikjum sem kemur þá niður á sjálfstæðri hugsun leikmanna! 

Það er ljóst að hæfileikamótun ungra leikmanna er flókin og krefjandi vinna. En um leið gríðarlega gefandi því það skiptir svo marga máli að rétt sé að hlutum staðið. Og allir eiga skilið GÓÐA ÞJÁLFUN! 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Leikmenn með fjölbreytta virkni

Að þjálfa unga leikmenn í sérstökum leikstöðum er mikil tímaskekkja að mínu mati og beinlínis röng þjálfun! Það á alls ekki að þjálfa leikmenn í yngri flokkum upp í einhverja eina leikstöðu! Það er rangt! Heldur þurfa leikmenn að vera þjálfaðir þannig að þegar upp í meistaraflokk er komið hafi þeir fjölbreytta „virkni“. Verði hinn fullmótaði leikmaður ef maður getur sagt sem svo þ.e. leikmaður sem getur til jafns bæði varist og sótt og tekist á við síbreytilegar aðstæður leiksins. Til þess þurfa leikmenn að hafa yfir að ráða fjölbreyttri virkni og færni. 1v1 hreyfingar gera gæfumuninn. Þó að lið sé miklu meira með boltann heldur en mótherjinn, þá ef mótherjinn er vel skipulagður og verst vel, getur reynst þrautinni þyngri að brjóta slík lið á bak aftur. Leikmenn sem geta búið til eitthvað úr engu eru sannarlega gulls ígildi fyrir öll lið og hefur það ekkert breyst og mun ekkert breytast. Æfingar í yngri flokkum þurfa því að endurspegla þetta og er grunnfærni einstaklings lykilatriði og...

Vitsmunaleg Færni í Knattspyrnu

Stundum er sagt að knattspyrnuþjálfun fari í hringi.   Er þá átt við að þessa stundina leggi allir áherslu á einhvern ákveðinn þátt frekar en einhvern annan. Þetta fer oftast eftir því hverjir skara fram úr á hverjum tíma. Ef við horfum aftur í tímann þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Á níunda áratug síðustu aldar voru menn t.d. mjög uppteknir af líkamlegu formi leikmanna. Var mikið unnið með hlaup og fleira án bolta, og í raun æfingar sem í dag myndu teljast ekki tengjast fótboltanum mikið.  Ástæðan var þýska landsliðið.  Oft nefnt þýska stálið!  Þeir unnu flesta fótboltaleiki á þessum tíma(og gera reyndar enn) og voru mjög líkamlega sterkir og höfðu mikið og gott úthald. Miklir íþróttamenn. Á árunum 1980-1990 varð þýska karlalandsliðið í fóbolta bæði Heims og Evrópu meistari. Fór auk þess tvisvar í úrslitaleik HM(vann s.s. einu sinni og var tvisvar í öðru sæti), og einu sinni að auki í undanúrslit EM. Þeir voru í raun fyrirmynd þessara ár...

Færni Ungra Knattspyrnumanna

Þegar Gerard Houllier var fræðslustjóri franska knattspyrnusambandsins þá lét hann gera rannsókn á því hversu oft staðan 1v1 kæmi fyrir í einum knattspyrnuleik. Niðurstaðan var sú(þá) að það kemur allt að 300 sinnum fyrir staðan 1v1 í knattspyrnuleik.  Það eru liðin mörg ár síðan þessi rannsókn var framkvæmd og leikurinn orðinn enn hraðari og kröfuharðari á færni leikmanna.  Oftar en ekki er ungum leikmönnum fyrirskipað að senda boltann einfalt frekar en að reyna flóknari hluti s.s. að senda erfiðari sendingar( úrslitasendingar eins og Gylfi og Fabregas sem geta breytt leikjum), einleika og búa þannig til svæði fyrir sjálfan sig og aðra eins og Robben, Ronaldo og Messi.  Fyrir þann sem ekki reynir gerist tvennt. Annarsvegar gerir hann eða hún aldrei mistök og hinsvegar nær hann eða hún engum framförum!  Við getum spurt okkur þeirrar spurningar hvað leikmenn eiga að gera þegar það er enginn til að senda á? Eiga leikmenn að sparka boltanum útaf? Eða þurfa lei...