Fara í aðalinnihald

Þjálfun barna og unglinga í knattspyrnu

Við þjálfum barna og unglinga í knattspyrnu er mikilvægt að leiðarstef þjálfunarinnar sé tæknileg færni iðkenda.

Fyrir það fyrsta eiga allar æfingar að hefjast á einhversskonar knattstjórnunar(ball mastery) æfingum.  Að hlaupa í hringi eða þess háttar upphitunaræfingar hafa engan tilgang og eiga ekki að vera hluti af þjálfun yngriflokka í knattspyrnu.

Æfingauppbygging þarf að vera með þeim hætti að færni sé kennd á yfirvegaðan hátt. Erfiðleikastigið og hraðann á svo að auka smá saman þar til komið er í leikrænar aðstæður undir fullri pressu.  
Í framhaldinu er mikilvægt að leikmenn séu hvattir til að reyna sig við þá færni sem kennd hefur verið í leikspili sem allar æfingar eiga að enda á.  
Þannig helst rauður þráður út í gegnum æfinguna og er hún sem ein heild. 
Það sem þjálfarar gera stundum er að kenna of mikið eða ,,over coach”(hefur undirritaður fallið í þá gryfju oftar en hann kærir sig um). Það reynist aldrei vel og of mikið af upplýsingum er aldrei af hinu góða að mínu mati.

Þegar spilað er á æfingum(ég notaði orðið leikspil áðan) mega ekki vera of margir í liði eða of miklar pásur.  Mikilvægt er að hafa nóg af boltum(1 bolti á hvern iðkanda) og sleppa föstum leikatriðum sem taka óratíma og hafa engan tilgang í þjálfun ungra iðkenda. 
Viðhalda þannig pressunni og hafa iðkendafjöldann þannig að allir hafi möguleika á að vera með boltann og reyna sína færni.  Ef barn hefur ekki boltann.  Hvernig getur það náð framförum?

Það er gríðarlega mikilvægt að þjálfarar geti sýnt æfingarnar og leyfi iðkendum svo að prófa.     Eftir það á að útskýra með örfáum orðum.  En alltof margir snúa þessu við eða sleppa jafnvel að sýna æfingarnar og tala eingöngu.
Svo er máttur endurtekningarinnar gríðarlega mikilvægur og ekki er hægt að kenna allt á einni æfingu :) 

Heimaverkefni á einnig að vera stór hluti af starfinu.  Mikilvægt er að setja iðkendum fyrir og hvetja þau til að æfa sig sjálf.  Hjá mörgum félögum á Íslandi er fyrirtaks aðstaða fyrir iðkendur til að æfa sig sjálf.

Knattstjórnunnar æfingar eða ball mastery eru frábærar æfingar fyrir iðkendur að nota við heimaæfingar. Það sem við gerum í Coerver Coaching, er að við setjum fyrir þær knattstjórnunar æfingar sem voru notaðar í upphituninni á viðkomandi æfingu.  Þannig kunna leikmenn æfingarnar og æfa sig heima.

Hér er dæmi um heimaæfingu.

Iðkendur sem eru duglegir að æfa knattstjórnun fá betri fyrstu snertingu á bolta, verða betri í að hlaupa með bolta, senda bolta, klára marktækifæri o.frv.

Þetta er ekki eingöngu skoðun okkar í Coerver Coaching heldur einnig Xavi Hernandes fyrrum stjörnuleikmanns FC Barcelona og Spánar.  Xavi sem er af mörgum talinn einn besti sendingamaður allra tíma  lét hafa eftir sér fyrir nokkrum árum ,,knattstjórnun er grunnurinn að sendingafærni”.

Eins og áður segir á aðaláhersla í þjálfun barna og unglinga  að vera færni einstaklingsins.  Það er að minnsta kosti skoðun okkar í Coerver Coaching. 

Pep Lijnders þjálfari hjá Liverpool FC hefur þetta að segja um hæfileikamótun ungra leikmanna.
,,Ungir leikmenn þurfa ekki gagnrýni, heldur fyrirmyndir.  Í augnablikinu sé ég fullt af þjálfurum sem
einblína eingöngu á taktík og úrslit leikja. Þeir sætta sig við núverandi tæknilega færni leikmanna sinna og einblína á að þróa taktík liðsins með það fyrir augum að vinna fleiri leiki.  Ég vil líka vinna fótboltaleiki en ég vil gera það vegna færni einstaklinganna í liðinu”.


Alvarlegt gaman eða ,,serious fun” er hlutur sem við í Coerver Coaching reynum alltaf að skapa.  
Okkar skoðun er sú að ef börnum finnst gaman þá læra þau betur.

Fyrirmyndir hafa einnig frá fyrstu tíð verið mikilvægur hlutur af æfinga og kennsluáætlun Coerver Coaching. Í yfir 35 ár höfum við notað bæði fyrirmyndir í formi leikmanna og einstakra liða.

Með því að hjálpa einstaklingnum að ná eins miklum framförum og mögulegt er gerist eftirfarandi.

Leikmaðurinn/iðkandinn nýtur fótboltans betur og hefur meira gaman af og er meira tilbúin að læra nýja hluti.

Foreldrarnir verða ánægðari og leikmaðurinn verður betur í stakk búinn til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og verða góður leikmaður með alhliða færni.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Leikmenn með fjölbreytta virkni

Að þjálfa unga leikmenn í sérstökum leikstöðum er mikil tímaskekkja að mínu mati og beinlínis röng þjálfun! Það á alls ekki að þjálfa leikmenn í yngri flokkum upp í einhverja eina leikstöðu! Það er rangt! Heldur þurfa leikmenn að vera þjálfaðir þannig að þegar upp í meistaraflokk er komið hafi þeir fjölbreytta „virkni“. Verði hinn fullmótaði leikmaður ef maður getur sagt sem svo þ.e. leikmaður sem getur til jafns bæði varist og sótt og tekist á við síbreytilegar aðstæður leiksins. Til þess þurfa leikmenn að hafa yfir að ráða fjölbreyttri virkni og færni. 1v1 hreyfingar gera gæfumuninn. Þó að lið sé miklu meira með boltann heldur en mótherjinn, þá ef mótherjinn er vel skipulagður og verst vel, getur reynst þrautinni þyngri að brjóta slík lið á bak aftur. Leikmenn sem geta búið til eitthvað úr engu eru sannarlega gulls ígildi fyrir öll lið og hefur það ekkert breyst og mun ekkert breytast. Æfingar í yngri flokkum þurfa því að endurspegla þetta og er grunnfærni einstaklings lykilatriði og...

Vitsmunaleg Færni í Knattspyrnu

Stundum er sagt að knattspyrnuþjálfun fari í hringi.   Er þá átt við að þessa stundina leggi allir áherslu á einhvern ákveðinn þátt frekar en einhvern annan. Þetta fer oftast eftir því hverjir skara fram úr á hverjum tíma. Ef við horfum aftur í tímann þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Á níunda áratug síðustu aldar voru menn t.d. mjög uppteknir af líkamlegu formi leikmanna. Var mikið unnið með hlaup og fleira án bolta, og í raun æfingar sem í dag myndu teljast ekki tengjast fótboltanum mikið.  Ástæðan var þýska landsliðið.  Oft nefnt þýska stálið!  Þeir unnu flesta fótboltaleiki á þessum tíma(og gera reyndar enn) og voru mjög líkamlega sterkir og höfðu mikið og gott úthald. Miklir íþróttamenn. Á árunum 1980-1990 varð þýska karlalandsliðið í fóbolta bæði Heims og Evrópu meistari. Fór auk þess tvisvar í úrslitaleik HM(vann s.s. einu sinni og var tvisvar í öðru sæti), og einu sinni að auki í undanúrslit EM. Þeir voru í raun fyrirmynd þessara ár...

Færni Ungra Knattspyrnumanna

Þegar Gerard Houllier var fræðslustjóri franska knattspyrnusambandsins þá lét hann gera rannsókn á því hversu oft staðan 1v1 kæmi fyrir í einum knattspyrnuleik. Niðurstaðan var sú(þá) að það kemur allt að 300 sinnum fyrir staðan 1v1 í knattspyrnuleik.  Það eru liðin mörg ár síðan þessi rannsókn var framkvæmd og leikurinn orðinn enn hraðari og kröfuharðari á færni leikmanna.  Oftar en ekki er ungum leikmönnum fyrirskipað að senda boltann einfalt frekar en að reyna flóknari hluti s.s. að senda erfiðari sendingar( úrslitasendingar eins og Gylfi og Fabregas sem geta breytt leikjum), einleika og búa þannig til svæði fyrir sjálfan sig og aðra eins og Robben, Ronaldo og Messi.  Fyrir þann sem ekki reynir gerist tvennt. Annarsvegar gerir hann eða hún aldrei mistök og hinsvegar nær hann eða hún engum framförum!  Við getum spurt okkur þeirrar spurningar hvað leikmenn eiga að gera þegar það er enginn til að senda á? Eiga leikmenn að sparka boltanum útaf? Eða þurfa lei...